Hér koma vel valdar uppskriftir af hvalkjöti.
Gott hvalkjöt minnir oft á nautakjöt. Það má helst ekki elda kjötið of mikið en þá getur það orðið seigt og þurrt. Kjötið er best snögg steikt og safaríkt, svipað og þegar nautakjöt er eldað. Einnig er hætta á lýsisbragði af hrefnukjöti ef það er eldað of mikið og ef það er af mjög feitri hrefnu, sem hefur jafnvel verið geymt lengi í frystir. Að leggja kjötið í mjólk dugar ekki, lítil steiking er best til að forðast lýsisbragð.
Mikilvægt er að skera kjötið rétt niður í sneiðar. Passa verður að skera þvert á vöðvaþræðina en ekki langsum eftir þeim. Stundum getur verið erfitt að átta sig á því hvernig vöðva þræðirnir liggja í kjötinu og þarf að skoða bitan vel. Ranglega niðurskornar sneiðar verða seigar við eldun.
Vel heppnað hvalkjöt er úrvals matur sem er án fitu og beina og má nota í flestar nautakjöts uppskriftir.
Uppskrift nr 1 - Hvalkjöts spjót
Skerið hvalkjötið í gúllasbita (ekki of stóra). Setjið í skál og hellið Cajp's grillolíu (þessi í áttstrendu flöskunum) yfir og látið marinerast yfir nótt eða frá morgni til kvölds. Leggið grillpinna í bleyti í ca 2 klst. Rúllið upp baconlengjum. Skerið papriku, rauðlauk eða sveppi í fremur grófa bita. Þessu er síðan þrætt upp á grillpinnana til skiptis. Kjöt + paprika + bacon + kjöt + rauðlaukur + kjöt o.s.frv. Þetta er svo grillað á útigrilli. Passið að grilla ekki of lengi því þannig þornar kjötið. Borið fram með kartöflum, grilluðum eða soðnum eftir smekk, grænum baunum, hrásalati eða annað sem fólk þykir gott. Piparsósa úr pakka er góð með.
Uppskrift nr 2 - Hvalkjöts steik
Skerið kjötið í 1 - 1.5 cm þykkar sneiðar. Penslið með BBQ sósu og grillið í ca 3-4 mín á hvorri hlið (á vel heitu grilli). Borið fram með léttsoðnu fersku grænmeti, kartöflum og grænpiparsósu.
Uppskrift nr 3 - Pönnusteik
Skerið kjötið í 1 cm þykkar sneiðar. Veltið sneiðunum upp úr pískuðu eggi og uxahalasúpudufti (fæst frá Erin). Steikið kjötið í ca 3 mín á hvorri hlið og hellið rjóma yfir og látið liggja í rjómanum í smá stund.
Uppskrift nr 4 - Hvalkjötsforréttur Fljótlegur skyndibiti sem er ótrúlega góður. Mikið notaði í Japan. Skerið hvalkjötið niður í örþunnar og litlar sneiðar. Dæmi: 5x5 cm sneiðar sem eru 3-5 millimetrar á þykkt. Veltið sneiðunum upp úr sojasósu og borðið hrátt.
|
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.