Hvalir éta 140.000 tonn af þorski

Áætlað er að æti hvalastofnanna hér við land séu um sex milljónir tonna á ári af hverskyns sjávarfangi þar af um tvær milljónir tonna af fiski. Þetta jafngildir fjórföldum meðalafla landsmanna á ári.
Þetta kom fram í máli Gísla Víkingssonar hvalasérfræðings í morgunþætti útvarps Sögu í morgun.
Í þættinum nefndi Gísli að langreiðastofnin væri mjög sterkur og teldi um 20.000 dýr í hafinu hér í kring. Þá kom fram að Hnúfubakurinn færi mjög stækkandi en að Steypireiðastofnin hefði ekki náð sér á strik eftir ofveiði fyrri ára en sá stofn teldi aðeins um eitt þúsund dýr.
Gísli nefndi að hreinn fiskur næmi um tveimur milljónum tonna af æti hvalanna en að ekki sé fyllilega vitað hve stór hluti af fiskinum sé þorskur. Hins vegar sýni frumniðurstöður rannsóknar sem unnið sé að á Hrefnu að þorskur sé töluvert hátt hlutfall af fæðu hennar. Gísli segir að í eldri könnun hafi komið í ljós að um 7% af fiskifæðu hvalanna væri þorskur en að ekki sé hægt að nota þá tölu til að fullyrða um hlutfall þorsks í æti þeirra, málið væri flóknara en svo, segir Gísli.
Þess má geta að ef 7% af fiskmeti hvala er þorskur, éta hvalastofnarnir hér við land um 140.000 tonn af honum, en leyfður heildarafli af þorski á þessu fiskveiðiári er 160.000 tonn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband