Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Grænlendingar hafa einhliða ákveðið að leyfa veiðar á 221 hval á þessu ári. Það er þremur langreyðum og einum hnúfubak umfram heimildir þeirra á nýliðnu ári. Ákvörðunin er í samræmi við tillögu um veiðar Grænlendinga næstu sex árin sem lögð var fram og felld á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Panama í fyrrasumar með atkvæðum 34 landa gegn 25, en þrjú lönd sátu hjá.
Héldu fast við aukningu
Grænlendingar héldu á fundinum fast við aukningu um fjögur dýr á ári, en ráðið hafnaði slíkri aukningu í atkvæðagreiðslunni. Þar með voru Grænlendingar í raun án hvalveiðikvóta og samskipti grænlensku heimastjórnarinnar og Alþjóðahvalveiðiráðsins síðustu mánuði skiluðu ekki árangri, en ráðið hefur frá 1985 ákveðið kvóta Grænlendinga.Heimastjórn Grænlands ákvað því einhliða hvalveiðikvóta í byrjun þessa árs í trássi við Alþjóðahvalveiðiráðið. Grænlendingar ætla sér að veiða 190 hrefnur, 19 langreyðar, 10 hnúfubaka og tvo Grænlandshvali í ár. Langmest af hvalnum veiðist við Vestur-Grænland, en aðeins er heimilt að veiða tólf hrefnur við Austur-Grænland. Fram kemur í grænlenskum fjölmiðlum að veiðarnar muni ekki fara gegn samþykktum Vísindanefndar IWC og áhersla sé lögð á sjálfbærni.
Í Grænlandi hefur komið fram hörð gagnrýni á vinnubrögð Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem m.a. eru sögð ómálefnaleg. Í sumar var haft eftir Önu Hansen, sjávarútvegsráðherra í heimastjórninni, að afgreiðslan á tillögu Grænlendinga í fyrrasumar væri enn ein vísbendingin um að hvalveiðiráðið virkaði ekki eins og það ætti að gera og færi ekki að skilmálum eigin stofnskrár. Ítrekað hefur verið bent á að hvalveiðar frumbyggja í Grænlandi væru ein af undirstöðum byggðar þar í aldir.
Andstæðingar hvalveiða Grænlendinga hafa haldið því fram að hvalkjöt hafi sést í frystikistum verslana í Grænlandi og á matseðlum veitingahúsa. Slíkt samræmdist tæpast frumbyggjaveiðum.
Ríki ESB gegn Grænlendingum
Á ársfundinum í sumar óskaði Danmörk eftir því að hvalveiðiráðið heimilaði Grænlendingum að veiða hvali á grundvelli frumbyggjaveiða og að aukning um nokkur dýr yrði heimiluð. Öll hin Evrópusambandsríkin lögðust gegn tillögu Dana. Fram kom í máli talsmanns ESB í fyrrasumar að reynt hefði verið að ná samkomulagi um takmarkaðar veiðar. Eftir að tilraunin mistókst hefðu ESB-ríkin ákveðið að greiða atkvæði gegn tillögunni.Á þessum fundi IWC var samþykkt að heimila Rússlandi, Bandaríkjunum og St. Vincent og Grenedines frumbyggjaveiðar á hval á afskekktum svæðum. Kvóti þeirra breyttist ekki á milli ára.
Fjöldi í samræmi við ráðgjöf
Árið 2006 hófu Íslendingar atvinnuveiðar á hvölum að nýju með veiðum á hrefnu og langreyði. Í janúar 2009 var gefin út reglugerð um veiðar á þessum tegundum hér við land til loka þessa árs. Leyfilegur heildarafli skal nema þeim fjölda dýra sem kveðið er á um í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar.Í ráðgjöf stofnunarinnar um hrefnu er lagt til að árlegar veiðar árin 2013 og 2014 verði að hámarki 229 dýr á íslenska landgrunnssvæðinu. Á nýliðnu ári voru veiddar 89 hrefnur hér við land.
Í fyrra voru ekki stundaðar veiðar á langreyði við landið, en Hafrannsóknastofnun leggur til að árlegar veiðar á langreyði árin 2013 og 2014 verði að hámarki 154 dýr.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.