Deila um hvalveiðar og hvalskoðun

http://ruv.is/frett/deila-um-hvalveidar-og-hvalskodun

 

Hvalveiðimenn og hvalaskoðunarfyrirtæki deila um hvort hagsmunir þeirra stangist á, eða hvort atvinnuvegirnir geti dafnað hlið við hlið. Tekjur af greinunum voru álíka miklar í fyrra, yfir milljarður króna af hvorri.

Í ár má veiða 229 hrefnur og 154 langreyðar í atvinnuskyni, en frá árinu 2006 hafa íslenskir hvalveiðimenn veitt 273 langreyðar og 296 hrefnur. Íslendingar hafa selt ríflega fjögur þúsund tonn af hvalaafurðum til útlanda frá árinu 1988 með hléum, fyrir tæpa 4,2 milljarða króna. Frá því að atvinnuveiðar voru heimilaðar að nýju árið 2006, hafa verið seld tæp 2.900 tonn af hvalaafurðum til útlanda fyrir tæpa 3,9 milljarða króna.

Rofar til í Japan

Langmestur hluti afurðanna hefur farið til Japan. Veiðar á langreyði hafa legið niðri undanfarin tvö ár, vegna erfiðra markaðsaðstæðna í Japan. Engu að síður hafa Japanar keypt ríflega 2.700 tonn af hvalaafurðum síðastliðin þrjú ár, fyrir tæpa 3,8 milljarða króna. Á síðasta ári nam salan 1.100 tonnum fyrir 1.300 milljónir króna samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofunni. Eitthvað virðist vera að rofa til á markaðnum í Japan því Kristján Loftsson, eigandi Hvals ehf, sem eingöngu hefur sinnt veiðum á langreyði, undirbýr veiðar í sumar milli Íslands og Grænlands.

Hrefnuveiðitímabilið stendur í sex mánuði en veiðarnar hafa nær alfarið einskorðast við Faxaflóasvæðið. Við þær starfa um tuttugu manns, fjórir bátar hafa leyfi til hrefnuveiða en tveir þeirra sinna hrefnuveiðum að einhverju marki.

Hvalveiðimenn og hvalaskoðunarfyrirtæki deila um hvort hagsmunir þeirra stangist á, eða hvort atvinnuvegirnir geti dafnað hlið við hlið. Tekjur af greinunum voru álíka miklar í fyrra, yfir milljarður króna af hvorri.

Eftirspurn umfram framboð

Af hverri veiddri hrefnu fást um 1.500 kíló af kjöti, þannig að 300 veiddar hrefnur til þessa hafa skilað um 450 tonnum af kjöti á markað frá því að atvinnuveiðar voru heimilaðar. Áætlaðar tekjur af veiðinni eru um 450 milljónir króna, en helmingur kjötsins hefur farið í sölu og helmingur á veitingastaði. Eftirspurn er meiri en framboðið og hrefnuveiðimenn hyggjast fullnýta kvótann þetta árið svo þeir geti boðið upp á hvalkjöt allt árið og mögulega hafið útflutning á því. Ferðaþjónustan hefur mótmælt hrefnuveiðum í Faxaflóa harðlega, og segja þær og hvalaskoðun ekki fara saman.

„Það hefur bara sýnt sig undanfarin ár að það hefur blómstrað hvalaskoðunin á meðan við höfum verið að veiða,“ segir Gunnar Bergmann Jónsson, talsmaður hrefnuveiðimanna. „Það er ákveðin lína sem var dregin í Faxaflóann 2009, við höfum haldið okkur fyrir utan þá línu. Hvalaskoðunarskipin fara aldrei út fyrir þá línu þannig að þarna verða ekki árekstrar og menn auðvitað geta alltaf verið með læti í kringum þetta en svona eru staðreyndirnar í málinu.“

Gestafjöldinn í hvalaskoðunarferðum þrefaldast

Á Íslandi eru starfrækt tíu fyrirtæki sem bjóða upp á hvalaskoðunarferðir og þar starfa um 250 manns yfir háannatímann og fimmtíu allt árið. Fjöldi gesta í hvalaskoðunarferðir hefur vaxið nær sleitulaust frá árinu 1995 og fjöldinn nær þrefaldast á síðustu tíu árum.

Árið 2002 voru gestirnir ríflega 62 þúsund. Í fyrra voru þeir 175 þúsund sem var metár, en tekjur hvalaskoðunarfyrirtækjanna námu um 1.100 milljónum króna á síðasta ári. Nefnd tveggja ráðuneyta kannar nú efnahagslega þýðingu hvalveiða, áhrif þeirra á ímynd landsins, en fulltrúar hvalveiða og hvalaskoðunarfyrirtækja eiga sæti í nefndinni. Helsta krafa hvalaskoðunarfyrirtækjanna þar er að Faxaflóinn verði friðaður fyrir hvalveiðum. Þau rekja fækkun hrefna í flóanum meðal annars til veiðanna, dýrin séu orðin styggari og það hafi dregið úr gæðum hvalaskoðunarferðanna.

„Þó að það sé erfitt að segja nákvæmlega hvað það er sem hefur áhrif á þessa miklu fækkun í flóanum, þá er það sennilega líka fæðan, en það er klárlega þeir hvalir sem eru skotnir þeir munu ekki verða sýndir,“ segir Rannveig Grétarsdóttir, formaður Hvalaskoðunarsamtaka Íslands. „Og við eigum mjög erfitt með að skilja af hverju það er ekki bara hægt að færa þessar hvalveiðar alveg út úr flóanum og vera ekki að stunda þær nær þessum hvalaskoðunarsvæðum. Það er nóg annað hafsvæði í kringum Ísland til að stunda þessar hrefnuveiðar á.“

Framkvæmdastjóri Hrefnuveiðimanna rekur fækkun hrefna í Faxaflóa, sem hvalveiðimenn hafa sömuleiðis orðið áskynja, fyrst og fremst til fæðuskorts. „Við viljum auðvitað að það sé sátt um þetta. Það virðist ekki vera neitt í augsýn að það sé svo, en menn verða að vera sanngjarnir og sýna sanngirni í þessu.“

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þá ætti það að vera á hreinu hvor greinin skilar meiri NETTÓTEKJUM....

Jóhann Elíasson, 17.5.2013 kl. 23:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband